Færslur: 2015 Nóvember

26.11.2015 00:11

Kerlingin á Drangsnesi

 Í árdaga þegar öll tröll höfðu hrökklast undan landnámi mennskra manna vestur á firði ákváðu þrjú nátttröll að moka sund milli meginlandsins og Vestfjarða, stofna þar tröllaríki og búa þar í friði fyrir mannfólkinu. Sér til gamans ákváðu þau að búa til eyjar af öllu því efni sem myndaðist af mokstrinum.

Tröllunum sem mokuðu að vestanverðu inn Gilsfjörðinn tókst að mynda þær óteljandi eyjar sem finnast á Breiðafirði, en tröllkerlingunni sem baslaði austanmegin inn Kollafjörðinn, tókst aðeins að mynda nokkra varphólma og blindsker.

Tröllin voru áhugasöm um verkið og gáðu ekki að sér í tíma. Sólin reis á himni og urðu þau að leita skjóls í skyndi til að daga ekki uppi.

Tröllin í Gilsfirði hlupu yfir Steinadalsheiði út Kollafjörðinn og urðu að steinum í Drangavík við Kollafjarðarnes.      

Kerlingin sem mokaði að austanverðu náði að stökkva norður yfir Steingrímsfjörð og staðnæmdist hjá klettabelti sem Malarhorn heitir, þar sem kauptúnið Drangsnes stendur. Þar hafði hún geymt uxa sinn meðan hún sinnti mokstrinum.

Þegar hún sá hvað henni hafði gengið illa að fylla upp í Húnaflóann og búa til eyjar, náði hún ekki upp í nef sér fyrir bræði og henti skóflunni af alefli í Hornið.

Við það spratt úr því spilda með uxanum og öllu öðru sem á því var og myndaði Grímsey sem er stærst eyja á Húnaflóa. Í því náði sólin að skína á kerlinguna og hún varð að drangi þeim sem stendur í þorpinu.

Þarna stendur kerla síðan við fjöruborðið og horfir á uxa sinn sem dagaði uppi við norðurenda eyjarinnar og stendur þar bergnumin. Þessari sögu til sönnunar segja menn að grjótlagið í eynni sé allt hið sama og í Malarhorni. 
 

23.11.2015 15:15

Á góðri stundu

 

 

 

 

 

20.11.2015 15:03

Kleppa

Tröllkona ein hét Kleppa og bjó í Staðardal í Steingrímsfirði um það leyti sem kristni barst til landsins.

Var henni afar uppsigað við kristna trú og afrekaði það meðal annars að eyðileggja steinboga sem lá yfir á við Kirkjutungur í norðanverðum Steingrímsfirði til að spilla leiðinni til kirkjunnar á Stað.

Kleppa fór oftsinnis norður í Trékyllisvík til að sækja stórviði í hof sem hún hafði í byggingu.

Þá bjó Finnbogi rammi á Finnbogastöðum og hafði hann reist kirkju á bæ sínum. Þegar Kleppa var í ferðum sínum stríddi Finnbogi henni gjarnan með því að hringja kirkjuklukkunum.

Varð henni ætíð svo bilt við að hún fleygði frá sér byrðunum og stökk í burtu með ópum og óhljóðum.

Einhverju sinni er Kleppa var búin að fá sig fullsadda af stríðni Finnboga, tók hún sig til og klippti allt gras af grundunum í kringum bæ hans.

Síðan meig hún þvílíku flóði að gríðarmiklar mýrar mynduðust við býlið.

Finnboga þótti meira en nóg um þessa framtakssemi skessunnar, skundaði upp í fjall og spyrnti heljarmiklu bjargi niður yfir hana.

Segja menn að hóllinn sem stendur upp við hlíðarrótina milli Finnbogastaða og Bæjar hafi orðið til úr skriðunni og ber hann nafn Kleppu.

 

18.11.2015 17:05

Lítið vatn

Óvenju lítið vatn í Selá, sést næstun því í staurana undir steypustöpplunum

16.11.2015 22:04

Tröllatunga

 

„Steingrímur nam Steingrímsfjörð allan og bjó í Tröllatungu."

Þannig kemst Landnámuhöfundur að orði um upphaf byggðar á þessum slóðum. Landnámsmenn höfðu margir glöggt auga fyrir góðum jörðum og Steingrímur trölli var sannarlega engin undantekning í þeim efnum.

Tröllatunga var prestssetur til ársins 1886, en kirkjustaður til 1909. Af jarðarbókinni 1710 er ljóst að Tröllatunguprestar voru ekki á flæðiskeri staddir með húsavið þótt jörðin næði ekki lengur til sjávar, því að kirkjan átti ítak í viðarreka á fimm jörðum.

Auk þess átti Tröllatungukirkja hlut í hvalreka á 10 jörðum.

Á Þjóðminjasafni Íslands er varðveitt forn klukka úr Tröllatungukirkju.

Síðasti presturinn sem sat í Tröllatungu var séra Halldór Jónsson.

Hann stofnaði, ásamt bræðrunum Ásgeiri og Torfa Einarssonum á Kollafjarðarnesi, lestrarfélag árið 1843 sem vann að framfara- og menningarmálum í prestakallinu með góðum árangri.

Tröllatunga var mesta heyskaparjörð Kirkjubólshrepps áður en vélvæðingin kom til sögunnar.

Fyrr á öldum, meðan land jarðarinnar náði allt til strandar, hafa yfirburðir hennar verið enn meiri.

Nafn bæjarins er dregið af hárri fjallstungu milli Arnkötludals og Tungudals, sem teygist niður undir byggð.

 

 

 

16.11.2015 21:51

Þreytt

Útigangur í tveimur reyfum

16.11.2015 21:46

Hvannadalur í Djúpi

 Eitthvað hefur gengið á hérna

 

16.11.2015 12:45

Steingrímur trölli

 

Á Staðarfjalli við Steingrímsfjörð á Ströndum þar sem hæst ber milli Gilsstaða í Selárdal og Staðar í botni Steingrímsfjarðar er klettaholt sem er kallað Steingrímshaugur, þakið grastorfu. Þar á Steingrímur trölli landnámsmaður að vera heygður.

Segir að hann hafi viljað láta heygja sig þar sem víðsýnast væri um landnámið og mælt svo fyrir að skip myndu ekki farast á firðinum þar sem sæist frá haugnum.

Steingrímur á að hafa falið fjársjóð í haug sínum áður en hann var heygður og sagnir eru um að menn hafi reynt að grafa eftir góssinu.

Hermt er að eitt sinn hafi tveir menn hafið gröft í hauginn í leit að fjármunum en þeim varð fljótlega ljóst að að þörf væri á öflugri verkfærum og fór annar þeirra að sækja þau.

Þegar hann kom á Teigabrún sýndist honum bærinn á Stað standa í ljósum logum. Hann sneri við til að segja félaga sínum tíðindin en þá voru fætur hins fastir við jörðina. Hættu þeir félagar þá greftrinum og hurfu frá.

Önnur sögn segir að í Steingrímshaugi hafi fundist hringur sem síðar var notaður á kirkjuhurð Staðarkirkju og skírnarfontur.

 

 

 

Myndir teknar á Steingrímshaug

 
 

16.11.2015 12:30

Sólin tekur sér frí

 Það er stutt í það að sólin taki sér frí frá okkur, þá er bara að hlakka til að hún komi aftur fagnandi.

 

09.11.2015 20:27

Kleppa Tröllkona


Tröllkona ein í fornöld hét Kleppa, blótkona mikil, og bjó hún á Kleppustöðum í Staðardal í Steingrímsfirði.

Hinumegin árinnar í Staðardal átti hún hof mikið og er það nú eyðikot sem heitir Hofstaðir, en neðar í dalnum stóð kirkja kristinna manna í Kirkjutungnafjalli sem kallað er.

Ár renna eftir Staðardalnum og falla saman neðan til við miðjan dalinn og var þar steinbogi yfir árnar.

Einn jólaaftan þegar fólk var við aftansöng kom Kleppa kerling neðan dalinn og ætlaði að kirkjunni; sjá menn þá til ferða kerlingar og er hún var komin á miðjan steinbogann hringdu menn klukkum öllum í kirkjunni.

Varð þá kerlingu svo bilt við að hún spyrnti í sundur steinboganum þegar hún ætlaði að snúa til baka, og komst þannig nauðuglega í burtu.

Þegar fé hennar einhvörju sinni hafði bitið gras á Staðareyrum sem vóru eign kirkjunnar varð kerlingu svo illt af mjólkinni að hún fékk mikla uppsölu af henni.

Kerling átti hest einn traustan er Flóki hét og sókti hún á hönum stórviði til hofs síns og bæjarhúsa norður í Trékyllisvík.

Á þessum hesti sótti hún líka skreið vestur á Langadalsströnd yfir Steingrímsfjarðarheiði.

Bjó hún þá til veg upp úr Staðarðalnum upp á heiðina í átján sneiðingum upp tungur sem kallaðar eru Flókatungur, og herti þá svo mjög að hestinum með að draga grjót úr sneiðingunum að hesturinn drapst þar.

Eftir þetta varð kerling að fara fótgangandi og fór hún oft eftir þetta norður í Trékyllisvík.

Bjó þá Finnbogi hinn rammi þar norður og hafði reista kirkju á bæ sínum.

Glettist þá Finnbogi oft við kerlinguna með því að hringja klukkum þegar hún ætlaði af stað úr víkinni með byrðar sínar, en henni varð þá ætíð svo hverft við þegar hún heyrði klukknahljóminn að hún kastaði byrðinni og stökk burtu.

Varð svo um síðir fullur fjandskapur milli Finnboga og kerlingar; var það einhverju sinni að kerling af stríði við Finnboga klippti gras allt af grundunum fyrir neðan Finnbogastaði og pissaði þvílíkt flóð ofan yfir allar mýrar í kringum bæ hans að þær eru ávallt blautar síðan.

Loksins fóru svo leikar með þeim Finnboga og Kleppu að hann sat fyrir henni og glímdu þau á flöt einni nálægt bæ hans er síðan heitir Glímuflöt, og gat Finnbogi fellt þar kerlingu og vann þar á henni.

Lét hann síðan húskarla sína draga kerlingu upp í mýrarnar og verpa yfir hana haug mikinn sem enn heitir Kleppa.

 Hér eru svo myndir af leyfum af svo nefndum Steinboga yfir Farmannsdalsána.

 

07.11.2015 23:58

Alltaf von á 1-5 eða fleirum

 

 Ótrúlegur hann bróðir að fara allar þessar ferðir á fjöll og leyta af kindum og eiga enga kind sjálfur,

og viti menn hann fann sína uppáhalds og kom henni til byggða geri aðrir betur.

 
 
Og hver er svo hérna fremst á myndinni ??

05.11.2015 13:57

Naflaskoðun

Framhaldsrannsókn á sauðfjárdauða

Kind og lamb
05.11.2015 Fréttir - Dýraheilbrigði
 

Matvælastofnun vinnur að undirbúningi að framhaldi rannsóknar á auknum sauðfjárdauða í fyrra vetur, í samvinnu við aðrar stofnanir og samtök. Rannsóknir sem gerðar hafa verið fram að þessu hafa ekki gefið afgerandi svör. Að því er virðist var um samspil margra þátta að ræða en ekki er hægt að útiloka undirliggjandi orsakir og því er þörf á frekari rannsóknum.

Matvælastofnun, í samvinnu við Landssamtök sauðfjárbænda, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Bændasamtökin og Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum undirbýr áframhaldandi rannsókn á sauðfjárdauðanum sem olli miklu tjóni hjá bændum veturinn 2014/2015. Valdir verða bæir vítt og dreift um landið sem urðu fyrir miklum afföllum og þeim fylgt náið eftir, tekin sýni og þau borin saman við þá bæi þar sem engin vandamál voru til að kanna hvort einhverjir þættir finnist sem geti skýrt þennan mun.  Beðið er svara frá ráðuneytinu varðandi fjárhagslegan stuðning áður en rannsóknin getur hafist af fullum krafti.

Út frá svörum í spurningakönnun sem lögð var fyrir sauðfjárbændur í sumar, voru valdir níu bæir sem síðan voru heimsóttir af dýralæknum. Þeir skoðuðu féð, tóku blóðsýni og sendu kindur í krufningu að Keldum, þegar það átti við. Niðurstöður þessara rannsókna gáfu engin afgerandi svör. Blóðsýnin gáfu engar vísbendingar um að um smitsjúkdóm væri að ræða. Þær kindur sem sendar voru í krufningu sýndu svipaða heildarmynd, kindurnar voru mjög horaðar þótt þær hafi augljóslega étið fram á síðustu stundu og benda krufningsniðurstöður til næringarskorts. Til viðbótar þessum rannsóknum tók Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins heysýni sem sýndu há gildi af ómeltanlegu tréni.

Þegar heildarmyndin er skoðuð út frá þeim rannsóknum sem framkvæmdar hafa verið hingað til, bendir allt til þess að vandamálið sé samspil margra þátta og má þar einna helst nefna tíðarfar. Sökum mikillar vætutíðar síðasta sumars var erfitt að heyja og má ætla út frá fóðursýnaniðurstöðum að víða hafi heyforðinn samanstaðið af úr sér sprottnu grasi sem dugar skammt til að viðhalda þeirri orku sem fé þarf til að dafna, og ekki síst þegar fóstrin hjá ánum fara að taka til sín. Í kjölfarið tók við afar kaldur vetur og vor sem kallaði enn frekar á orku sem að fóðrið innihélt ekki. Þó er ekki hægt að útiloka undirliggjandi orsakir og er því þörf á frekari rannsóknum. Við rannsóknina munu ýmsar hugmyndir að skýringum verða hafðar til hliðsjónar, m.a. hvort um sé að ræða áhrif mengunar frá eldgosinu í Holuhrauni, en enn er ekkert sem styður þá tilgátu.

 

04.11.2015 14:57

Í pössun

 Indurnar komnar í pössun

 

 
 

 

Ófeigur Indi kom líka