Færslur: 2015 Júlí
13.07.2015 14:26
Og áfram talað UM girðingar
Ástand sauðfjárvarnarveikigirðinga víða slæmt
Ástand sauðfjárveikivarnargirðinga er víða slæmt og Landssamtök sauðfjárbænda hafa að undanförnu unnið ötullega að því að bragabót verði gerð þar á. Framkvæmdastjóri hefur hringt, sent tölvuskeyti og formleg bréf til viðeigandi aðila í stjórnsýslunni í anda samþykkta síðasta landsfundar samtakanna og bent á að það sé mat sauðfjárbænda að verulega vanti upp á að viðhaldi sauðfjárveikivarnargirðinga sé sinnt sem skyldi í samræmi við 12. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993 og annarra laga og reglugerða sem við eiga.
Eftir því sem næst verður komist hamlar fjárskortur því að hægt sé að grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru svo bæta megi úr. Þær aðgerðir sem eru brýnastar að mati yfirdýralæknis svo ekki stefni í óefni, þ.e. viðgerðir og endurbætur á Snæfellslínu, Gilsfjarðarlínu, Miðjarðarhólfi og fáeinum bútum til viðbótar, kosta líklega á bilinu 10-11 milljónir króna. Matvælastofnun hefur úr 8 milljónum að spila til þessara verkefna samkvæmt upplýsingum þaðan. Hér er aðeins um að ræða það sem þarf að gera til að skilja að ósýkt svæði og þekkt sjúkdóma svæði og vernda líflambasölusvæði. Víða annars staðar eru sauðfjárveikivarnargirðingar varla fjárheldar og nauðsynlegt að verja fé til bóta á t.d. Tvídægrulínu, Hvammsfjarðarlínu og Kjalarlínu sem gætu kostað allt að 8 milljónum. Þá eru ótaldar aðrar línur þar sem þarf að laga eða endurnýja, s.s. Hvalfjarðarlína, Bláskógalína, Kýlingarlína o.fl.
Til viðhalds þessa kerfis sauðfjárveikigirðinga þarf a.m.k. 25 -30 milljónir króna árlega. Ekki hefur verið farið í verulega endurnýjun á girðingum síðan árið 2013 þegar fé fékkst úr Verðmiðlunarsjóði (sem dugði þó ekki til). Það liggur ljóst fyrir að neyðarforvarnir duga ekki til langframa og eins að í óefni stefnir ef ekki verður gripið til viðeigandi aðgerða hið fyrsta. Lélegar girðingar þýða að fé fer á milli hólfa sem getur valdið bændum miklu tjóni og óþægindum. Farga þarf fé og greiða út bætur. Að mati Landssamtaka sauðfjárbænda er mun skynsamlegra að verja fé strax til viðhalds og og endurnýjunar girðinga.
Að auki er verið að taka verulega áhættu með því að ráðast eingöngu í neyðarviðgerðir, tjasla saman lélegum girðingum og leyfa öðrum að drabbast niður. Hætta á nýjum sýkingum er auðvitað alltaf fyrir hendi og gerist það – og fari sýkt fé á milli hólfa, er ljóst að tjónið getur orðið gríðarlegt. Fjárdauðin í vetur og vor er svo enn ein áminningin. Landssamtök sauðfjárbænda hafa óskað eftir því bæði formlega og óformlega að gerð verði bragabót á og fjármagn verði tryggt svo viðhalda megi sauðfjárveikivarnargirðingum á Íslandi með sóma.
- 1