21.02.2014 10:08

Fjallageiturnar

Tómas Sigurgeirsson og hundurinn Guðlaugur í fjárhúsunum.
Tómas Sigurgeirsson og hundurinn Guðlaugur í 
fjárhúsunum.
 

Enn fundust útigangskindur við innanvert Ísafjarðardjúp um síðustu helgi og fimm í þetta sinn. Þar af átti Tómas Sigurgeirsson (Tumi) bóndi á Reykhólum eina gimbur, en systir hennar kom í leitirnar á svipuðum slóðum í fyrri hluta janúar eins og hér var greint frá. „Við áttum von á að þarna væri fleira fé því að það vantaði í hópinn sem kom þá,“ segir hann. „Það voru áhugamenn sem söfnuðust saman í þetta. Bræðurnir frá Hafrafelli eru nú alveg sér á parti í þessum efnum, þeir Guðmundur og Trausti, og svo voru líka Leifur í Djúpadal og Tóti á Laugalandi [við Djúp].“

Tumi segist bara hafa farið með sem liðléttingur. „Þetta eru hálfgerðar hobbíferðir, en með tilgang! Er þetta ekki annars bara svipað og þegar fólk er að fara í golf eða eitthvað? Það er misjafnt hverju menn hafa áhuga á. Þetta er ekki arðsamt. Trausti kemur frá Reykjavík í þetta, það er nú enginn smáspotti hjá honum.“

Farkostirnir í þessari ferð voru fjórhjól og bílar. „Sumir fóru í Laugabólsdal og Húsadal, Álftagrófardal og Geitadal og víðar, en Tóti og Trausti fóru inn Hvannadalinn og þar upp á fjall, upp á Tunguvatnadal. Mig minnir að lömbin tvö hafi verið þar. Það tók allan daginn að finna þau. Það sást að þau höfðu rásað um allt fjallið, það voru bæli víða. Þeir halda að þarna sé fleira fé, allavega tvær kindur í viðbót, þeir bara fundu þær ekki,“ segir Tumi.

„Þegar þetta var komið í bíl var ákveðið að halda áfram og kíkja með Tóta upp með Hafnardalsánni. Þar rakst Trausti fyrst á för eftir eina kind og Leifur á för eftir tvær. Þeir leita og leita og fara þar um allt. Þarna er snjór og eiginlega ekkert gras, bara lágt kjarr. Svo rakst Trausti allt í einu á þrjár kindur saman í hóp, eina á og tvö lömb. Þetta fé var frá Tóta á Laugalandi.“

Annað lambið sem fannst upp af Hvannadal átti Tumi en hitt var frá Stað í Steingrímsfirði. Ærin sem átti það fannst í nóvember á Rauðamýrarfjalli.

Tumi telur víst að enn sé þarna fé á útigangi. „Þetta er stærðar svæði sem er ekkert smalað. Það er svo merkilegt, þarna er fínn hagi niður við sjóinn en þær fara ekkert niður að sjó heldur hanga þarna uppi. En það var fínn hagi og nóg beit þar sem lömbin voru, enda eru þau feit og fín.“