29.01.2014 20:51

Kjöt og fita

Breytt vægi vöðva og fitu

Á fundi fagráðs í sauðfjárrækt sem haldinn var fimmtudaginn 23. janúar sl. var samþykkt að vægi gerðar og fitu í heildareinkunn fyrir kjötgæði yrði jafnað og hvor eiginleiki hefði því 50% vægi. Um rúmlega 10 ára skeið hefur fitan haft 60% vægi og gerðin 40%. Þessi breyting tekur gildi fyrir framleiðsluárið 2014. Nánar verður gerð grein fyrir breytingunni í næsta Bændablaði.

Þá hefur verið ákveðið að næstkomandi haust verði tekin upp samræmiseinkunn við dóma gimbra, þannig að draga megi fram mun á langvöxnum og stuttvöxnum gripum. Þessi viðbót við lífgimbraskoðunina verður kynnt betur þegar líður að hausti.

Gengið var frá því að styrkhæfar afkvæmarannsóknir haustið 2014 byggðust á þeirri kröfu að lágmark væri að í hverri afkvæmarannsókn yrðu 5 veturgamlir hrútar.

Ákveðið var að þeir grunnhópar sem mynda viðmiðið fyrir kynbótamatsútreikninga yrðu samræmdir fyrir kjötmatseiginleika (gerð og fitu) og dætraeiginleika (mjólkurlagni og frjósemi). Meðaltal grunnhópsins er skilgreint sem 100. Grunnhópar fyrir það kynbótamat sem t.d. var birt í hrútaskránni sl. haust byggja á eftirfarandi: Fyrir kjötgæðaeiginleika á gögnum frá árunum 2000 til 2013, fyrir frjósemi á ám fæddum árið 2003 til 2012 og fyrir mjólkurlagni á ám fæddum á árunum 2002 til 2011. Faghópi sauðfjárræktar var falið að koma með tillögu að því hvernig best væri að skilgreina grunnhópana og verður niðurstaða þess kynnt betur að lokinni keyrslu næsta kynbótamats.

Í fagráði eru einnig til umræðu núna mál er snúa að dómstiga fyrir mat á lifandi fé og drög að reglum sem nota má við val á úrvalshrútum og sauðfjárbúum t.d. þar sem veita á afreksverðlaun. Um þessi mál og fleiri áhugaverð sem tekin voru fyrir á síðasta fundi má lesa um í fundargerð fagráðs en hún verður aðgengileg á vefnum www.saudfe.is innan tíðar.