05.01.2014 15:53

ATH

Allt búfjáreftirlit til MAST

 

Um áramótin tóku gildi ný lög um dýravelferð.  Þau leysa af hólmi lög um dýravernd frá 1994 og í þeim felast mun ítarlegri og harðari úrræði fyrir Matvælastofnun til að taka á málum þar sem illa er farið með dýr.  Lögin ná núna yfir allt dýrahald, bæði í atvinnuskyni og gæludýrahald. Verið er að endurskoða aðbúnaðarreglugerðir fyrir einstakar dýrategundir þ.m.t. sauðfé en því er ekki lokið og reglugerð um aðbúnað sauðfjár frá árinu 2000 er því enn í gildi.  

Um leið tóku jafnframt gildi ný lög um búfjárhald sem leysa af hólmi eldri lög frá 2002.  Meginbreytingin þar er að allt búfjáreftirlit færist frá sveitarfélögunum til MAST.  Skv. því sem stofnunin hefur sagt þá stendur til að samræma eftirlitið þannig að öllu eftirliti hjá bændum verði sinnt í sömu heimsókn og af sama eftirlitsmanni.  Þá er um leið ætlunin að áhættuflokka eftirlitið þannig að allir bændur verði ekki endilega heimsóttir árlega eins og tíðkast hefur.  En þar sem vandamál koma upp megi hins vegar búast við fleiri heimsóknum en áður.  Stofnunin á þó eftir að útfæra þetta nánar, ekki síst núna á fyrsta gildistökuári laganna.

 

 

Ný gæðastýringarreglugerð

 

skjaldarmerkiVakin er athygli á því að komin er út endurskoðuð reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu, sem tekur gildi um áramótin. Athugið að viðaukar birtast bara í pdf útgáfunni. Frumkvæði að endurskoðuninni kom frá Landssamtökum sauðfjárbænda, með það að markmiði að styrkja gæðastýringuna í sessi. Með samþykkt aðalfundar LS 2012 var skipuð nefnd er vann tillögur fyrir aðalfund 2013 sem þar voru afgreiddar. Nýja reglugerðin byggir á samþykkt aðalfundarins en atvinnuvegaráðuneytið hafði einnig samráð við umhverfisráðuneytið, Matvælastofnun og Landgræðsluna.

Allir þátttakendur í gæðastýringunni eru hvattir til að kynna sér reglugerðina vel og eins þeir sem sóttu um aðild í nóvember sl.  Fjallað verður nánar um efni hennar hér á síðunni eftir nýárið.