26.04.2013 17:32
Nú er ég hissa
40 milljónir í varnarlínur
Á síðasta degi vetrar var undirritað samkomulag milli atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, Bændasamtaka Íslands og Landssamtaka sláturleyfishafa um ráðstöfun eftirstöðva þriggja sjóða sem innheimtu hefur verið hætt til. Sjóðirnir voru í vörslu Bændasamtakanna og eru lagðir niður með þessu samkomulagi. Stærstum hluta fjárins verður varið til viðhalds og endurnýjunar varnargirðinga til að hefta útbreiðslu sauðfjársjúkdóma. Viðhald varnarlína er í umsjá MAST eins og kunnugt er.
Sjóðirnir sem um ræðir eru:
1. Verðmiðlunarsjóður kindakjöts. Alls nema eftirstöðvar sjóðsins tæplega 63,7 m.kr. Til endurnýjunar varnargirðinga á árinu 2013 verður varið 40 m.kr. Eftirstöðvarnar renna til Landssamtaka sláturleyfishafa. Verðmiðlunargjald af kindakjöti var 5 krónur á kíló innlagðs kindakjöts þegar það var síðast innheimt árið 2005 og bar sláturleyfishöfum að standa skil á því. Tekjum af gjaldinu var ætlað að jafna flutningskostnað á sláturfé, kindakjöti og til markaðsstarfa.
Útflutningssjóður kindakjöts. Alls nema eftirstöðvar sjóðsins tæpum 6,5 m.kr. Rennur fjárhæðin til Landssamtaka sláturleyfishafa. Útflutningsgjald var innheimt af sláturleyfishöfum ef þeir uppfylltu ekki útflutningsskyldu á kindakjöti, en eins og kunnugt er þá var hún lögð af um mitt ár 2009 og innheimtu í sjóðinn hætt.
Verðskerðingarsjóður nautakjöts. Alls nema eftirstöðvar sjóðsins rúmum 1,4 m.kr. en innheimtu í hann var hætt 1. janúar 2006. Er fénu varið til Landssambands kúabænda til að standa straum af markaðsstarfi.
Samkomulaginu fylgir jafnframt viljayfirlýsing þar sem segir: "Ráðuneytið mun beita sér fyrir því að gerð verði áætlun um þörf endurnýjunar varnargirðinga til næstu 5 ára að teknu tilliti til þeirra fjármuna og endurnýjuna sem gerð verður á árinu 2013. Þá lýsir ráðuneytið stuðningi sínum við tillögu Matvælastofnunar til fjárlaga fyrir árið 2014, en þar er gert ráð fyrir að veitt verði 35,5 m.kr. framlag vegna varnargirðinga til að hefta útbreiðslu sauðfjársjúkdóma".